23.6.2007 | 18:48
Um Geir Ólafs og snilldargáfur
Ég sá í fréttum um daginn að átrúnaðargoðið mitt, Geir Ólafsson, ætlar að fá Nancy Sinatra til að halda tónleika á Íslandi. Það varð til þess að ég fór aðeins að hugsa um þennan mikla mann.
Það var mikil ógæfa fyrir heimsbyggðina að Geir skyldi fæðast á Íslandi en ekki á fjömennari stað eins og til dæmis í Bandaríkjunum. Hingað til hafa aðeins nokkrar íslenskar hræður fengið að njóta þessa miklu hæfileika sem búa í manninum.
Ég vildi alltaf verða söngvari. Svona stórsöngvari eins og Geir og Frank Sinatra og þessi kallar. Svo prufaði ég að taka upp einhvert lag sem mér fannst ég syngja gullfallega en þegar ég heyrði svo upptökuna þá hljómaði hún ferlega asnalega. Mér fannst ég vera með asnalega rödd!! Ég lét söngferilinn á hilluna eftir það og snéri mér að leiðinlegri og minna sjarmerandi viðfansefnum.
Ég varð einusinni þess mikla heiðurs aðnjótandi að fá að hitta Geir. Það var á árshátíð hjá Kaupþingi þar sem hann var að skemmta. Ég var einhverra hluta vegna staddur ásamt vinnufélaga mínum á barnum í anddyrinu á Nordica meðan allir árshátíðargestirnir voru inni í salnum. Geir var þá í anddyrinu að koma sér í stuð án þess að við yrðum þess varir. Skyndilega koma hann upp að barnum og pantaði sér drykk og tók svo á spjall við okkur. Við hefðum aldrei þorað að spjalla við hann af fyrra bragði. Hann spurði okkur hvort við værum í bankageiranum. Við kváðum svo vera en notuðum þó aðeins eins atkvæðis orð enda uppnumdir yfir nærveru Geirs og að hann skyldi sjálfviljugur koma að spjalla við okkur. Hann sagði þá að ef hann hefði snúið sér að bankageiranum í stað sönggeirans þá væri hann sko aðalkallinn sem hefði grætt langmesta peninginn. Við værum í besta falli í vinnu hjá honum. Ég varð svo hugfanginn af þessum yndishroka sem aðeins stórstjörnur og mikilmenni gætu tamið sér að ég gat ekki ropað upp spurningunni sem mig hefur alltaf langað til að spyrja hann síðan ég heyrði fyrst hans yndisfögru rödd. Til að tryggja að ég klúðri þessu ekki næst ætla ég því að láta tattóvera spurninguna í lófann á mér og sýna honum næst þegar ég hitti hann (ef ég verð svo heppinn). ´"Hljómar þín rödd líka asnalega þegar þú heyrir hana á upptöku?"
Þangað til ég hitti hann næst ætla ég að æfa stellinguna. Þið vitið, stellinguna sem geir fer alltaf í (sjá á mynd) Þar sem hann snýr vinsti öxlinni að manni og er með fingurna í stöðu þar sem maður er ekki viss hvort hann sé að benda eða ætli að smella fingrum. Maður sér fyrir sér að í næstu hreyfingu muni hann blikka öðru auganu á kynþokkafullan hátt og sveifla sér svo í hring. Sjarminn í augunum er óviðjafnanlegur og maður getur rétt ímyndað sér hvernig konurnar hljóta að kikna í hnjánum þegar þær sjá þetta. Enda er maðurinn annálað kvennagull og mér skilst að hann sé búinn að ná sér í svaka skutlu, einhverja nánast heimsfræga útvarpskonu.
DingDong
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.